laugardagur, 28. janúar 2017

Árla morguns

Ég hef alltaf verið mikill morgunhani. Ég man þegar ég var í 8.bekk byrjaði Stöð 2 að sýna teiknimyndir á laugardagsmorgnum og þó ég hafi tæknilega verið of gömul til að horfa var ég alltaf komin á ról og gat horft á Jem and the Holograms í friði. Þetta hefur svo haldist allt í gegn, ég er alltaf búin með heilan vinnudag rétt um 10leytið. (Ekki að horfa á Jem and the Holograms). Mér þótti nú samt heldur um of í morgun þegar ég var komin fram úr klukkan hálf sex á laugardagsmorgni.

Josie, kisan okkar, er nefnilega heilmikill veiðiköttur, kemur með tvær til þrjár mýs inn á viku. Í morgun kom hún með eina sprelllifandi og fannst við hæfi að ég kæmi niður til að dást að veiðifærninni. Greyið litla músin skalf og hristist og var eins og límd við gólfið af hræðslu einni saman. Ég kem sjálfri mér á óvart með að geta tekið hana varlega upp og haldið á henni aftur út í grasið. Ég veit ekki hvort hún var eitthvað slösuð innra með sér, og kannski hef ég bara  framlengt einhverjar kvalir en hún var farin þegar birti og ég fór aftur út í garð. Sjálfsagt étin af uglu eða eitthvað.



Allavega, ég var á fótum og gat allt eins farið í húsverk. Smellti í kanilsnúða og spilaði CandyCrush á meðan ég beið eftir að deigið hefaði sig og mér finndist ég nógu mjó til að vigta mig. Þaes væri búin að pissa tvisvar eða þrisvar. Ég tvísteig reyndar aðeins við að vigta mig. Ég er nefnilega búin að vera geðveikislega mjó og sæt í vikunni. Ég veit ekkert afhverju, en þannig leið mér. Ég er alla vikuna búin að vera að berjast við þessar andstæðu tilfinningar sem halda aftur af mér að sættast við sjálfa mig eins og ég er og þessa þrá að léttast. Ég get bara alls ekki sleppt þeirri löngun og von. Kannski ef ég bara umfaðma það sem hluta af sjálfri mér líka, svona eins og ég er búin að sættast við að ég hef enga þolinmæði í langtímaverkefni, kannski er það bara besta lausnin. Ég bara viðurkenni að ég eigi alltaf eftir að langa til að vera mjó, og það er bara ég, en það þýði ekki að ég geti ekki glöð og sátt lifað í þessari samtíma fullvissu minni um að ég sé einmitt geðveikislega sæt og mjó núna.


Svona morgunpælingar skila kannski ekki miklu. En samt, ef ég er einu skrefi nær að finna jafnvægið var það kannski þess virði að bjarga einu músagreyi. Kanilsnúðarnir er tvímælalaust þess virði. Ég trúi staðfastlega á að matur sem maður hefur smávegis fyrir sé bestur. Og að það skipti litlu máli þó það sé þá eitthvað sem flokkast sem "óhollt". Það er nefnilega allt of auðvelt að verða sér úti um nammi. Ég labba framhjá nokkrum búðum á leið heim úr vinnu og tók þessa mynd bara svona í bríaríi án þess að miða sérstaklega á nammið;

Súkkulaðikexpakkar, Oreokex, snakk, hlaup... allt á 50 pence. Hundraðkall. Það eina hollt sem mér dettur í hug sem kostar 50 pence er gúrka. Ein gúrka eða stór pakki af oreos? Ekki nema von að við séum öll rorrandi um í spiki. Þetta er ódýrt, innan seilingar, auðvelt og í ofgnótt. Ég veit að þetta gerir mér erfitt fyrir. Að grípa stóran maltesers poka fyrir hundraðkall? Ekki málið, ég er meira segja ekki viss um að það geti verið svo margar hitaeiningar í hundraðkalli. Mín lausn er að forðast sem mest að labba framhjá svona búðum. Og setja mér svo það verkefni að vinna inn fyrir ljúfmetinu. Ef ég þarf að standa í eldhúsinu, fara út í búð að kaupa hveitið, hnoða, blanda, fletja, skera, nú þá á ég gúmmelaðið meira skilið. Svo er ég líka frelsishetja í músasamfélaginu.

Engin ummæli: